Það var snemma í öndverða byggð goðanna, þá er goðin höfðu sett Miðgarð og gert Valhöll, þá kom þar smiður nokkur og bauð að gera þeim borg á þrem misserum svo góða að trú og örugg væri fyrir bergrisum og hrímþursum þótt þeir komi inn um Miðgarð. En hann mælti sér það til kaups að hann skyldi eignast Freyju, og hafa vildi hann sól og mána.
Þá gengu æsirnir á tal og réðu ráðum sínum, og var það kaup gert við smiðinn að hann skyldi eignast það er hann mælti til ef hann fengi gert borgina á einum vetri. En hinn fyrsta sumars dag, ef nokkur hlutur væri ógjör að borginni, þá skyldi hann af kaupinu. Skyldi hann af engum manni lið þiggja til verksins. Og er þeir sögðu honum þessa kosti, þá beiddist hann að þeir skyldu lofa að hann hefði lið af hesti sínum er Svaðilfari hét. En því réð Loki er það var til lagt við hann.
Hann tók til hinn fyrsta vetrardag að gera borgina, en of nætur dró hann til grjót á hestinum. En það þótti ásunum mikið undur hversu stór björg sá hestur dró, og hálfu meira þrekvirki gerði hesturinn en smiðurinn. En að kaupi þeirra voru sterk vitni og mörg særi, fyrir því að jötnum þótti ekki tryggt að vera með ásum griðlaust ef Þór kæmi heim, en þá var hann farinn í austurveg að berja tröll.
Radixx.ConnectPoint 6.6.4.33 | WSRadixx.Hybrid 6.6.4.33 | NewAirServices.Hybrid 6.6.4.33 |